24. apríl 2024
Moldamín, ruslfæði fyrir plönturnar þínar
Melta, fyrirtæki sem sérhæfir sig í hringrásarlausnum, hóf samstarf með Krónunni og Brandenburg á Hönnunarmars þar sem hönnunarvaran Moldamín var kynnt til leiks. Varan er óvenjuleg því um er að ræða næringarríkan jarðvegsbæti fyrir plöntur sem framleiddur er eingöngu úr þreyttum ávöxtum og grænmeti frá Krónunni sem annars hefðu endað í lífrænum úrgangi.
„Við, ásamt milljónum örvera, útbjuggum dekursafa fyrir plöntur,” segir Björk Brynjarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Meltu. „Við sérhæfum okkur í að brugga lífrænan úrgang og nýta afurðina til að græða upp jarðveg. Okkur leiðist reyndar orðið úrgangur því um verðmæti er að ræða sem hægt er að nýta, sérstaklega hér á Íslandi þar sem um 40% jarðvegi flokkast sem hrjóstrug eyðimörk.
Við vinnum í hringrásarlausnum og Moldamín samstarfið með Krónunni og Brandenburg er frábært dæmi um verkefni sem við viljum taka okkur fyrir hendur.”
Brandenburg sköpunarstofa tók að sér það verkefni að hanna umbúðir vörunnar og setja í form upplifun og skilaboð Moldamínsins.
Krista Hall, yfirhönnunarstjóri verkefnisins frá Brandenburg, segir að „innkoma þeirra var að sameina þessi markmið Meltu og Krónunnar og koma því til skila í vörunni sjálfri, með leikgleðina og fræðslu að leiðarljósi“. Nafnið Moldamín er vísun í vítamín fyrir moldina með slagorðið „ruslfæði fyrir plönturnar þínar“, sem tengir hringrásarlausnina og minni matarsóun saman.
“Eitt okkar helsta markmið í umhverfismálum sem matvöruverslun er að minnka sóun,” segir Heiðdís Inga Hilmarsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Krónunni. “Samstarfið með Meltu og Brandenburg er búið að vera mjög lærdómsríkt og skemmtilegt, en það það gefur okkur hjá Krónunni svo mikið að vinna með hönnuðum sem hjálpa okkur að hugsa út fyrir kassann. Við vonum að markmiðið náist að hönnunarvaran skapi athygli og umræðu á hvernig hægt er að nýta verðmæti aftur í hringrásarhagkerfið, sem annars hefðu endað sem lífrænn úrgangur.”
Moldamín verður frumsýnt á Hönnunarmars dagana 24. til 28. apríl og fáanlegt fyrir viðskiptavini Krónunnar á Granda þar sem samhliða verður opnuð sýning á verkefnum ungra hönnuða sem einblína á matvöruverslun framtíðarinnar.