Krónan tekur við umbúðum


Krónan hefur nú sett upp sérstakt afpökkunarborð fyrir viðskiptavini í tveimur verslunum sínum, í Lindum og úti á Granda. Um er að ræða visst milliskref hjá Krónunni við að minnka plast og pappa.

Afpökkunarborðin eru staðsett fyrir aftan afgreiðslukassa og geta viðskiptavinir tekið umbúðir utan af vörunum sínum sem það telur sig ekki þurfa.  Á borðunum er hægt að flokka og skilja eftir plast- og pappaumbúðirnar. Krónan sér síðan til þess að umbúðirnar séu flokkaðar og endurunnar á réttan hátt.

Ástæðan fyrir þessari nýjung hjá Krónunni er að verslunin vill finna leiðir til að minnka heimilisruslið.  Langtíma markmið er að lágmarka umbúðir  í samstarfi við birgja og er sú vinna hafin hjá Krónunni.

 ,,Við hjá Krónunni erum meðvituð um þá staðreynd að ein helsta áskorun í umhverfismálum samtímans er að minnka sóun, bæði þá sóun sem verður til vegna matar sem fer til spillis en einnig vegna pappa- og plastumbúða utan um matvæli og nauðsynjavörur.  Krónan er stórt fyrirtæki sem getur nýtt kraft sinn til góðs og er afpökkunarborðið eitt af mörgum verkefnum sem eru í gangi hjá okkur.

Borðið er hugsað sem aukin þjónusta við viðskiptavini okkar og er ákveðið millistig í þeirri vinnu sem er framundan í því að finna umhverfisvænni umbúðir. Viðskiptavinum gefst kostur á að skilja óþarfa umbúðir eftir í verslunum okkar og flokka en við sjáum um að umbúðirnar séu flokkaðar á réttan hátt.  Við vonum að vel verði tekið í þetta framtak sem verði til þess að álíka afpökkunarborð verði til staðar í sem flestum verslunum Krónunnar.

 Okkar langtímamarkið er að  finna umbúðir sem tryggja bæði að ferskleiki matvörunnar haldist sem lengst svo matarsóun aukist ekki og að umbúðirnar verði umhverfisvænni í góðri samvinnu við framleiðendur, söluaðila og okkar viðskiptavini. Þannig má segja að markmiðið sé að ekki verði þörf á afpökkunarborðum í framtíðinni“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

 

Meðfylgjandi mynd 1: afpökkunarborði í verslun Krónunnar á Granda. Ljósmyndari: Hörður Sveinsson

Meðfylgjandi mynd 2: afpökkunarborði í verslun Krónunnar á Granda. Ljósmyndari: Hörður Sveinsson

Meðfylgjandi mynd 3: afpökkunarborði í verslun Krónunnar á Granda. Ljósmyndari: Hörður Sveinsson

Meðfylgjandi mynd 4: afpökkunarborði í verslun Krónunnar á Granda. Ljósmyndari: Hörður Sveinsson

Meðfylgjandi mynd 5: Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Ljósmyndari: Íris Dögg Einarsdóttir

Birt: 22. janúar, 2019