Krónan sparar hátt í 300 tonn af pappa árlega


Hátt í 300 tonn af pappa sparast árlega hjá Krónunni með þeim skrefum sem stigin hafa verið með umhverfisstefnu Krónunnar samkvæmt nýrri samantekt sem gerð hefur verið á árangri Krónunnar á sviði umhverfismála. Jafnframt hefur verslunin náð 25 – 50% orkusparnaði og minnkað matarsóun um meira en helming í verslunum sínum.

Samkvæmt úttekt sem Krónan hefur gert á þeim skrefum sem stigin hafa verið í umhverfismálum kemur fram að með því að hætta útsendingu á vikulegum fjölpósti til íslenskra heimila og með notkun fjölnota kassa fyrir innflutt grænmeti í stað pappakassa hefur náðst að spara hátt í 300 tonn af pappa. Jafnframt hefur náðst 25 – 50% orkusparnaður með því að skipta út kælum í verslunum, taka up led lýsingu og CO2 kælikerfi. Átak Krónunnar í að draga úr matarsóun undir merkjum „Síðasti séns“ hefur minnkað matarsóun í verslununum um helming. Fleiri skref hafa verið stigin á sviði umhverfismála hjá Krónunni, svo sem vitundarvakning um plastnotkun undir merkjum „Þarftu poka“, opnun fyrstu verslunarinnar án plastburðarpoka með opnun Krónubúðar í Skeifunni nýverið. Krónan hætti jafnframt að bjóða upp á frauðplastbolla á kaffistofum og skrifstofum Krónunnar og spara með því um 60.000 bolla árlega. Þessar aðgerðir og fjölmargar aðrar eru liður í umhverfisstefnu Krónunnar.

„Við hjá Krónunni vitum að við getum haft áhrif til góðs á samfélagið sem við búum í og teljum mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum. Því höfum við lagt metnað í umverfismál og starfsfólk okkar brennur fyrir þau. Við höfum þegar gert töluverðar breytingar til góðs í verslunum okkar en erum hvergi nærri hætt. Þessi úttekt á stöðu umhverfismála hjá okkur var gerð því það er mikilvægt að skoða árangurinn og setja sér svo ný markmið. Krónan hefur ýmis áform um það sem við viljum gera á komandi mánuðum og árum og leitum stöðugt nýrra leiða til að geta boðið viðskiptavinum okkar  umhverfisvænni umbúðir. Þá erum við að leita að vélum til að pakka inn kjöti sem selt er í Krónunni í umhverfisvænni umbúðir og höfum þegar náð árangri með allt hakk og hamborgara Krónunnar sem er komið í umhverfisvænni umbúðir en áður. Krónan telur mikilvægt að eiga öflugt samstarf við birgja okkar, með samtali okkar allra finnum við lausnir og leiðir til að minnka umhverfisspor Krónunnar.“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Nánar: https://kronan.is/i-alvoru/

 

Birt: 12. mars, 2019