Krónan hlýtur Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins


 

Krónan hlaut í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem veitt er árlega. Það var umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem veitti Krónunni viðurkenninguna, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Framkvæmdastjóri Krónunnar segi viðskiptavini, birgja og allt starfsfólk Krónunnar eiga saman heiðurinn að árangri þeirra í umhverfismálum, að allir hafi verið tilbúnir að leggja sitt á vogarskálarnar svo vel tækist til.

Krónan hefur á undanförnum árum gert breytingar í verslunum sínum með því markmiði að draga úr umhverfisáhrifum sínum og sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Þar má meðal annars nefna átakið „Síðasti séns“ þar sem matvörur eru seldar á mikið niðursettu verði og með því hefur matarsóun minnkað um meira en helming. Krónan hefur jafnframt sett upp afpökkunarborð í fjölda verslana þar sem viðskiptavinum býðst að skilja eftir umbúðir sem verslunin sér svo um að endurvinna með viðeigandi hætti. Krónan hefur einnig dregið úr plastnotkun með fjölda aðgerða svo sem að bjóða pappapoka, hvetja viðskiptavini til að minnka notkun plastpoka, hefja notkun sykurreirspoka o.fl. Einnig hefur stórdregið úr pappírssóun en verslanirnar hættu fjölpóstssendingum og hófu notkun á endurnýtanlegum kössum undir grænmetissendingar frá birgjum sínum og hefur þannig sparast hátt í 300 tonn af pappa á ári. Ennfremur hafa verslanir skipt út opnum kælum fyrir lokaða og skipt yfir í LED lýsingu en með því hefur náðst um 25 – 50% orkusparnaður. Í rökstuðningi dómnefndar  fyrir valinu á Krónunni sem handhafa Kuðungsins kemur fram að allt frá árinu 2015 hafi fyrirtækið markvisst unnið að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum í sínum rekstri. Þá er sérstaklega minnst á aðgerðir Krónunnar á sviði matarsóunar og segir: „Að draga úr matarsóun er mjög stórt verkefni. Það að stíga fram og segjast ætla að taka á matarsóun er ákveðið ferli, og hefur Krónan náð eftirtektarverðum árangri á því sviði.“

„Við erum feikilega stolt af þessari frábæru viðurkenningu sem fyrir okkur er staðfesting þess að við stefnum í rétta átt hjá Krónunni er kemur að umhverfismálum. Þetta á sér langan aðdraganda, við höfum á undanförnum árum markað okkur skýra stefnu í umhverfismálum því við trúum því að við getum lagt okkar af mörkum. Við höfum átt í öflugu samtali við okkar frábæra starfsfólk, birgjana okkar og viðskiptavini um umhverfismál og leitum allra leiða til að draga úr umhverfisáhrifum okkar hjá Krónunni.

 Við viljum því þakka viðskiptavinum okkar, frábæra starfsfólkinu okkar og samstarfsaðilum okkar fyrir að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Þessi árangur hefði ekki náðst án öflugs samtals okkar allra, með því að sameinast um umhverfismál verður hægt að ná áþreifanlegum markmiðum til góðs. Við erum hvergi nærri hætt heldur höldum ótrauð áfram að skoða hvernig við hjá Krónunni getum gert betur á sviði umhverfismála. Þessi viðurkenning verður okkur ákaflega gott veganesti í þeirri vegferð“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Meðfylgjandi mynd frá afhendingu viðurkenningarinnar, ljósmyndari er Birgir Ísleifur.

Birt: 30. apríl, 2019